Legislation
Equipo Nizkor
        Bookshop | Donate
Derechos | Equipo Nizkor       

19maí01 - ISL


Lög um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

- Iceland -


Lög um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

2001 nr. 43 19. maí




Tóku gildi 1. júlí 2002. Breytt með l. 88/2008 (tóku gildi 1. jan. 2009 nema brbákv. VII sem tók gildi 21. júní 2008), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).
Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. Gildissvið.
□ Nú fer Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn þess á leit, í samræmi við samþykkt dómstólsins frá 17. júlí 1998 (Rómarsamþykkt), að hér á landi verði framkvæmdar aðgerðir vegna rannsóknar eða meðferðar máls og skal þá farið með slíkar beiðnir í samræmi við ákvæði þessara laga. Sama gildir um beiðnir dómstólsins um fullnustu dóma.
□ Beiðni um aðgerðir skv. 1. mgr. skal send [ráðherra] 1) sem hefur að öðru leyti samskipti við dómstólinn fyrir hönd íslenska ríkisins.
    1)L. 126/2011, 323. gr.

2. gr. Afhending manns til dómstólsins.
□ Að beiðni dómstólsins skal afhenda mann sem dvelur hér á landi og er grunaður um glæp sem fellur undir lögsögu dómstólsins eða hefur verið ákærður eða dæmdur fyrir slíkan glæp.
□ Um meðferð máls skv. 1. mgr. gilda ákvæði II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum að því leyti sem þau eiga við.
□ [Ráðherra] 1) getur veitt heimild til þess að maður sem annað ríki hefur samþykkt að afhenda dómstólnum verði fluttur um yfirráðasvæði íslenska ríkisins.
    1)L. 162/2010, 167. gr.

3. gr. Önnur aðstoð.
□ Íslenskir dómstólar og stjórnvöld geta að beiðni dómstólsins veitt þá aðstoð sem tilgreind er í 93. gr. Rómarsamþykktarinnar að því tilskildu að slík beiðni sé í samræmi við önnur ákvæði samþykktarinnar.
□ Að beiðni dómstólsins er [ráðherra] 1) heimilt að veita starfsmönnum dómstólsins leyfi til að yfirheyra vitni og framkvæma aðrar rannsóknaraðgerðir hér á landi. Um meðferð slíkra beiðna og framkvæmd aðgerða fer eftir lögum um meðferð [sakamála]. 2)
    1)L. 162/2010, 167. gr. 2)L. 88/2008, 234. gr.

4. gr. Beiting þvingunarráðstafana.
□ Að beiðni dómstólsins er heimilt að handtaka mann og beita öðrum þvingunarráðstöfunum. Um meðferð slíkra beiðna fer eftir lögum um meðferð [sakamála]. 1)
□ Ef lög gera það að skilyrði fyrir beitingu þvingunarráðstafana að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsivert brot skal leggja til grundvallar niðurstöðu dómstólsins um það atriði.
□ Maður sem úrskurðaður hefur verið í gæsluvarðhald skv. 1. mgr. getur gert kröfu um að hann skuli leystur úr gæsluvarðhaldi þar til afhending til dómstólsins fer fram. Krafa þess efnis skal borin fram við héraðsdóm.
□ Við mat á kröfu um lausn úr gæsluvarðhaldi skv. 3. mgr. þar til afhending fer fram skal dómari hafa hliðsjón af þeim atriðum sem fram koma í 4. mgr. 59. gr. Rómarsamþykktarinnar. Áður en héraðsdómur tekur slíka kröfu til úrskurðar skal tilkynning um meðferð kröfunnar fyrir héraðsdómi send dómstólnum og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir af því tilefni.
    1)L. 88/2008, 234. gr.

5. gr. Verjandi sakbornings.
□ Maður sem grunaður er um eða ákærður fyrir háttsemi sem fellur undir lögsögu dómstólsins skal eiga rétt á aðstoð verjanda að eigin vali vegna meðferðar málsins hér á landi. Skal honum tilkynnt um þennan rétt.
□ Þóknun verjanda greiðist úr ríkissjóði og skal ákveðin samkvæmt lögum um meðferð [sakamála]. 1)
    1)L. 88/2008, 234. gr.

6. gr. Réttargæslumaður brotaþola.
□ Brotaþoli í máli sem fellur undir lögsögu dómstólsins getur óskað eftir að fá skipaðan réttargæslumann ef ástæða þykir til að ætla að hann hafi orðið fyrir verulegu tjóni á líkama eða heilsu vegna háttsemi ákærða og talið er nauðsynlegt að hann njóti aðstoðar réttargæslumanns.
□ Ákvæði [V. kafla laga um meðferð sakamála] 1) skulu gilda eftir því sem við á.
    1)L. 88/2008, 234. gr.

7. gr. Ne bis in idem.
□ Maður verður ekki ákærður eða dæmdur hér á landi fyrir verknað sem dómur hefur fallið um hjá dómstólnum.

8. gr. Fullnusta dóma Alþjóðlega sakamáladómstólsins hér á landi.
□ Að beiðni dómstólsins er heimilt að fullnægja dómum hans hér á landi. Dómum má fullnægja þótt dómþoli sé ekki íslenskur ríkisborgari eða búsettur hér á landi.
□ Fullnusta dóma hér á landi skal fara fram í samræmi við ákvæði 10. kafla Rómarsamþykktarinnar.

9. gr. Refsingar fyrir brot gegn dómstólnum eða starfsmönnum hans.
□ Ákvæði XII., XV. og XVII. kafla almennra hegningarlaga eiga við um háttsemi sem beinist að dómstólnum eða starfsmönnum hans.

10. gr. Reglugerðarheimild.
□ [Ráðherra] 1) er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og um samskipti við dómstólinn.
    1)L. 162/2010, 167. gr.

11. gr. Gildistaka.
□ Ákvæði laga þessara taka gildi um leið og Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn öðlast gildi að því er Ísland varðar.


[Source: Skrifstofa Alþingis (Office of Parliament) Website.]

International Criminal Law:
Country List | Home Page
small logo

This document has been published on 01Mar18 by the Equipo Nizkor and Derechos Human Rights. In accordance with Title 17 U.S.C. Section 107, this material is distributed without profit to those who have expressed a prior interest in receiving the included information for research and educational purposes.